Fara í efni
Hótel - Aldiana Alcaidesa
Hótelið samanstendur af 19 húsum sem hvert um sig er með 16 herbergjum. Það er staðsett við Miðjarðarhafið með stórkostlegu útsýni yfir á Gíbraltarklettinn.
Aldiana er þýsk hótelkeðja sem gerir mjög miklar kröfur um að matur og allur aðbúnaður sé eins og best verður á kosið. Á svæðinu eru m.a. 10 tennisvellir, líkamsræktarstöð, innisundlaug, gufubað, 2 útisundlaugar, leikhús, næturklúbbur o.fl. Dagskrá er fyrir börn og unglinga allan daginn en á kvöldin eru skemmtisýningar í leikhúsinu og annað hvort lifandi tónlist eða diskótek við barinn. Allir drykkir eru innifaldir.
 
Á fimmtudagskvöldum er „gala-kvöld“ á hótelinu eða „black and white kvöld“ og er þá óskað eftir að sem flestir mæti í einhverju svörtu og hvítu – en, það er þó alls engin skylda.
Örstutt er niður á mjög góða strönd þar sem hægt er að synda eða ganga klukkustundum saman í flæðarmálinu en sjórinn þarna er einstaklega tær.
 
Golfvellirnir og klúbbhúsið eru á hæð fyrir ofan hótelið og því sér hótelið og golfvöllurinn um að skutla kylfingum hnökralaust á tveimur 8 manna skutlum upp í klúbbhús og til baka reglulega, eða á u.þ.b. 10-15 mínútna fresti.
Kylfingar geta á morgnana smurt sér brauð og tekið með sér ávexti og vatn út á golfvöll. Sérstakur „golfers lunch“ er líka á hótelinu kl. 14-17 á daginn. Á hótelinu öllu er mjög gott þráðlaust netsamband.