Fara í efni
La Gomera 2024-25
Ævintýraeyjan La Gomera
Tecina Golf á La Gomera Tecina-golfvöllurinn er í 5 mínútna göngufjarlægð frá Hotel Jardin Tecina en einnig er boðið upp á akstur út á völl. Völlurinn er 18 holur, par 71, með einstöku útsýni yfir Atlantshafið og El Teide, hæsta fjall Spánar sem er á nágrannaeyjunni Tenerife. Á vellinum er æfingasvæði, púttsvæði, vipp svæði, sandgryfjur og klúbbhús með bar, veitingastað og golfverslun.

Af vellinum er stórfenglegt útsýni yfir náttúrufegurð eyjunnar La Gomera, yfir Atlantshafið og El Teide. Það sem heillar golfspilarana þó mest er landslagið sem þeir spila í en landslag Tecina-golfvallarins á sér ekki hliðstæðu.


Kylfingar sem kjósa að ganga völlinn eru keyrðir upp á fyrsta teig þar sem kerrurnar bíða eftir þeim. Þeir sem spila á golfbíl keyra sjálfir upp á fyrsta teig. Við fyrsta teiginn er púttflöt og lítill golfskáli og er útsýnið þaðan stórkostlegt. Hæðarmunurinn á milli fyrsta teigs sem er hæsti punktur vallarins og 18. flatar sem er lægsti punkturinn er 175 metrar. Brautirnar eru leiknar þvert á hlíðina og niður í móti svo kylfingar njóta sjávarsýnar af hverri braut vallarins. Það er nokkuð sem fáir golfvellir í heiminum geta státað af. Við einstaka hönnun þessa heimsklassagolfvallar var tekið með í reikninginn að flestir kylfingar eru ferðamenn sem vilja njóta golfleiksins í góðu umhverfi og notalegum félagsskap. Því hafa svæðin í kringum brautirnar verið hönnuð þannig að þau séu þægileg og er mikið pláss í kringum flatirnar. Þrátt fyrir það reynir á betri kylfinga að spila staðsetningargolf og að setja höggin réttu megin á brautir og flatir til að ná sem bestu skori. Margar brautirnar eru það eftirminnilegar að þær festast í minni kylfinganna sem bestu og fallegustu golfbrautir sem þeir hafa leikið.