Fara í efni
London frá Akureyri
Upplýsingar um London

Gaman að skoða og upplifa

Big Ben, Westminster og Tower Bridge eru með þekktustu kennileitum London sem flestir ferðamenn skoða á leið sinni um borgina. Buckingham höll skoða flestir og það er skemmtileg upplifun að fylgjast með vaktaskiptum varðmannanna. London Eye fer með þig upp í 135m hæð þar sem er frábært útsýni yfir borgina og með því að sigla um Thames ána færðu nýja sýn á borgina. Ef þú ert á menningarlegum nótum er mikill fjöldi safna sem gaman er að skoða. Almenningsgarðar eru víða þar sem gaman er að rölta um. Þetta er aðeins brot af því besta og listinn nánast ótæmandi.

Verslun

London er þekkt sem verslunarborg og þar er hægt að finna allt sem hugurinn girnist. Oxford Street er þekktasta verslunargatan með fjölbreyttum verslunum. Þar er líka gaman að rölta um og virða fyrir sér iðandi mannlífið. Í flestum hverfum eru verslunarmiðstöðvar og víða ýmsir markaðir sem gaman er að heimsækja.

Matur og drykkur

Veitingastaðir eru á hverju strái þar sem hægt er að fá mat frá öllum heimshornum. Það er gaman að smakka innlendan mat í bland við annað sem bragðlaukarnir girnast. Einnig er skemmtileg upplifun að setjast inn á ekta breskan pub og upplifa stemminguna hjá heimamönnum sem fá sér einn eða tvo ”pint” eftir vinnudaginn.

Samgöngur

Auðvelt er að ferðast um London og sjá marga staði á skömmum tíma. Það er gaman að ganga um á milli áhugaverðra staða, fylgja straumnum og vera partur af iðandi mannlífinu sem þar er. Þegar maður fer að þreytast er fljótlegt að ferðast um með einu elsta neðanjarðarlestarkerfi heims “The Tube”, eða stoppa næsta leigubíl. Rauðu tveggjahæða strætóarnir eru mjög einkennandi fyrir London og þeir eru frábær leið til að skoða borgina. Þar situr þú í rólegheitum og nýtur þess að sjá markverðustu staðina.

Afþreying

Spurningin er hvað þig langar að gera og sjá, því möguleikarnig eru endalausir. Það er t.d. hægt að fara á söngleiki sem sýndir eru allt árið, sjá sýningar í sögufrægu leikhúsi eða fara á tónleika af öllum stærðum og gerðum. Yfir veturinn er hægt að upplifa það að fara á fótboltaleik hjá einhverju Lundúnarliði eða í næsta nágrenni.