Fara í efni
Gönguferð á Madeira
Ferðalýsing

Gönguferð á blómaeyjunni Madeira
7.-16. maí. 2024

Fararstjóri er Steinunn Harðardóttir


Verð kr. 399.500 á mann í tvíbýli.
Innifalið; Flug, akstur, gisting og fæði samkvæmt ferðalýsingu, íslensk og innlend fararstjórn.

Madeira fellur vel að hugmyndum okkar um paradís. Þar eru fallegar klettamyndanir,dimmblátt haf, ótrúleg blómskrúð, fjölbreytt úrval af grænmeti og litríkum ávöxtum og glaðlegt fólk. Þetta ásamt mikilli friðsæld, fallegu og spennandi landslagi, fjölbreyttu gróðurfari og einstakri veðurblíðu laðar ferðamenn hvaðan æfa að til Madeira. Madeira er lítil portúgölsk eyja 800 ferkílómetrar að stærð en skammt frá henni eru minni eyjar Porto Santo og Desertas. Þessa eyjar voru miðstöð landkönnunar- og nýlenduveldis Portúgala fyrr á öldum. Þær drógu að sér sjómenn í landaleit og drekkhlaðin sæför frá öllum heimsálfum. Nú er öldin önnur og Madeira er orðin miðstöð skútusiglingarmanna og náttúruunnenda. Hún er blóma- og fugla paradís þar sem vetur eru mildir og hlýjir og sumrin ekki of heit. Madeira er líka paradís göngumanna. Þarna eru spennandi fjallatoppar, djúpir og dramatískir dalir og gil með gróðrsælum stallaræktunum og hundruðum kílómetra af áveituskurðum (levadas). Levadas setja mikinn svip á landið en það eru mjóir skurðir sem voru grafnir fyrir mörgum öldum til að safna rigningavatni úr fjöllunum og flytja niður á ræktarlandið. Þess vegna hefur eyjan orðið einn risa grasagarður þar sem finna má gróður allstaðar að úr heiminum.

FERÐATILHÖGUN:
Í þessari fyrstu gönguferð Göngu Hrólfs til Madeira er gist á 4*hótelum í tveimur bæjum á eyjunni, Santa Cruz á austurströndinni og Porto Moniz á norðurströndinni auk höfuðborgarinnar Funchal. Gengið verður um hásléttu, lárviðarskóga, meðfram áveituskurðum og um fjölbreytt og fallegt landslag. Göngulandið er greiðfært, hækkun 100-400 metrar og frekar þægileg. Göngurnar taka 4-5 tíma og eru 10-13 km. Morgunmatur og kvöldmatur er á hótelunum í Santa Cruz og Port Moniz en hádegismatur á eigin vegum. Morgunverður er innifalinn í Funchal en ekki kvöldverður. Ath. hámarksfjöldi í ferðina er 14 manns og einstaklings herbergi er ekki í boði

7. maí Keflavík – Santa Cruz.
Lent er á flugvellinum á Madeira sem er eins og grafinn inn í fjallshlíðina. Þaðan er ekið til smábæjarins Santa Cruz þar sem við munum gista næstu tvær nætur á Santa Cruz Village Hotel. Íbúar eru um 7000. Ef tími vinnst til verður farið í stutta síðdegisgöngu á Sao Lourenco skaganum og gengið að Casa Sardinha og tilbaka sömu leið þar sem rútan bíður okkar. Skaginn er nefndur eftir seglskútunni sem João Gonçalves Zarco sigldi, hann var einn þeirra þriggja sem uppgötvuðu Madeira. Þegar hann nálgaðist land hrópaði hann yfir skipið „São Lourenço nú er komið nóg.“ Þarna eru fallegir marglitir klettar og ljósmyndamöguleikarnir margir þegar gengið er eftir mjóu nesinu með sjóinn á báðar hendur – . Gengið þrjá tíma 8 km. hæst farið 160 m lægst 77 m, frekar létt. Kvöldmatur á hótelinu.

8.maí Gengið með Ribeiro Frio til Portella.
Við höldum með rútu inn á miðja eyjuna til Ribero Frio sem er einn fallegasti áveituskurðurinn á Madeira. Frá þessu svæði er frábært útsýni til norðurs. Áveituskurðir „levadas“eru ástæða hinnar miklu frjósemi og ræktunar sem einkennir Madeira. Um þá fer vatn frá vestur- og norðvesturhluta eyjarinnar til suðvestur strandarinnar sem er mun þurrari. Fyrstu skurðirnir voru grafnir á 16.öld og þeir síðustu um 1940. Nú eru þeir líka uppspretta raforkuvinnslu. Gangan hefst við frægar silungatjarnir og má sjá silunga skjótast í skjól þegar þeir verða varir við göngumenn eða jafnvel koma upp að yfirborðinu í von um brauðmola. Á leiðinni njótum við einstaks leiks ljóss og skugga þegar sólin skín gegnum sérstæða lárviðar- og lyngskóga og kjarr og fjölmargar svo nefndar einlendar tegundir sem einungis vaxa á Madeira. Ekið til baka til Santa Cruz. Gengið 4 tíma,11 km hæst farið 860 m, lægst 605 m. Frekar létt. Kvöldmatur á hótelinu.

9.maí Machico - Porto da Cruz.
Gengið er inn fallegan dal og upp í skarðið Bocka do Rico og haldið um hlíðarnar meðfram sjónum til Porto da Cruz. Um þennan fallega stíg var farið með vínþrúgur frá norðri og suður til Machico. Leiðin sem liggur meðfram sjónum og yfir hæðina Larano er ein stórbrotnansta gönguleiðin á þessum slóðum. Á seinni hluta hennar getur verið vindasamt og kaldara en annarstaðar á eyjunni en útsýnið er fallegt og andstæðurnar miklar. Þegar við komum til Porto da Cruz gefst tími til að heimsækja eina elstu sykurreirverksmiðju á Madeira áður en okkur verður ekið á næsta gististað í Porto Moniz þar sem við gistum á Aqua Natura Bay Hotel. Gengið 4 tíma, um 12 km, hæst farið 360 m, lægst 15 m. Frekar létt. Kvöldmatur á hótelinu.

10.maí Lombo do Urzal-Faja do Penedo.
Eftir stuttan akstur komum við að Falca de Cima. Eftir um 40 mín. göngu upp að Levada dos Tornos liggur leiðin um eitt fallegasta svæði Madeira en það er lárviðarskógurinn Lombo do Urzal. Þarna uppi í skóginum er frábært útsýni yfir þorpin fyrir neðan. Leiðin liggur síðan niður til Faja do Penedo þar sem rútan bíður okkar. Síðdegis getum við notið dvalarinnar á hótelinu sem stendur rétt við sjóinn og synt í náttúrulaugum eða hrauntjörnum sem Porto Moniz er þekkt fyrir. Göngutími 3.5 klst. Gengið um 7.5 km, hæst farið 600 m, lægst 300 m. Miðlungs erfitt. Kvöldmatur á hótelinu.

11.maí Fanal - töfrandi skóglendi.
Við ökum frá Porto Moniz á svæði sem nefnist Assoviadores þar sem gangan hefst en hún er líklega ein af einkennisgöngum Madeira. Leiðin liggur um heillandi fornan lárviðarskóg (Fetid laurel), stórbrotið landslag Rabacal dalsins og norðurströndina Ribeiro da Janera og Chao do Ribera. Tréin í lárviðarskóginum eru sum kræklótt og allt að 800 ára gömul. Stundum er hluti landsins hulinn þokuslæðu sem gefur því sérstæðan og dularfullan blæ. Þessi töfrandi gróður og landslag veitir göngumanninum einstaka upplifun. Síðdegis getum við notið aðstöðunnar á hótelinu okkar í Porto Moniz . Göngutími um 3.5 klst. Gengið um 13 km á frekar auðveldu göngulandi. Hæst farið 1460 m, lægst 1140 m. Miðlungs erfitt. Kvöldmatur á hótelinu.

12.maí -Rabaçal- 25 Fontes (Tuttugu og fimm uppsprettur)
Við yfirgefum nú hótelið í Porto Moniz og okkar bíður ein þekktasta gönguleið Madeira. Við höldum inn á svæði sem nefnist Paúl da Serra, sem er á vesturhluta eyjarinnar og göngum þar á milli tveggja áveituskurða Levada do Risco og Levada Nova do Rabaçal. Á göngunni er farið framhjá nokkrum fossum og allsstaðar eru sérstæðar einlendar háfjallaplöntur sem einkenna eyjuna eins og t.d. risafíflar. Og víða er frábært útsýni yfir þessa friðuðu hásléttu. Stefnan er tekin á tjörn eða lón sem í renna 25 litlir fossar eða uppsprettur en af því kemur nafn svæðisins. Við höldum síðan í átt að suðuhluta eyjarinnar og förum um göng sem liggja frá Rabalal til Loreto ( Garagem). Það getur verið gott að vera með vasaljós þar sem gangan um göngin tekur um 20 mín. Þegar komið er út úr göngunum liggur leiðin að öðru hæsta standbergi í heimi: Cabo Girão ( 580 m ). Síðan er haldið til Funchal á hótelið Turim Santa Maria þar sem við gistum næstu 4 nætur. Göngutími 4 klst. Gengið 14 km. Hæst farið 1278 m, lægst 977 m. Miðlungs erfitt. Kvöldmatur ekki innifalinn.

13.-16.maí frídagar í Funchal
Funchal er fjölskrúðug gömul og falleg nýlenduborg með steinilagðar gangstéttir og þröngar götur. Yfir henni gnæfa háir og klettóttir fjallatindar. Íbúarnir eru um 112.000. Það er gaman að fara með toglyftunni „cable cars“ upp í fjöllin til Monte en þar er skemmtilegur garður The Monte Palace með japanskar brýr, tjarnir með koi fiskum, fjölbreyttar pálmategundir og litfögur blóm. Þaðan er hægt að taka aðra toglyftu yfir í grasagarðinn sem stendur í nokkrum bratta handan við djúft gljúfur. Þar er fjöldinn allur af sérstæðum trjám og blómum og úr garðinum er einstakt útsýni yfir Funchal og út á sjó. Skammt frá toglyftustöðinni er gamli bærinn og hin skemmtilega gata Santa María en þar eru fjölbreytt og falleg málverk á flestum útidyranna og margir góðir veitingastaðir. Í nágrenninu er bændamarkaðurinn Mercado dos Lavradores sem býður upp á litfagurt úrval af ávöxtum, grænmeti og kryddjurtum og fjölbreyttar fiskitegundir. Þá er hægt að fara í sjóinn, leigja kajak eða fara í siglingu á tvíbytnu eða “gömlu”seglskipi svo nokkuð sé nefnt. Því má bæta við að það er blómahátíð 2.-26. maí svo borgin verður fagurlega skreytt og ýmislegt á döfinni.

Fararstjóri Steinunn Harðardóttir leiðsögumaður auk innlendrar leiðsagnar.