Fara í efni
Pílagrímsganga um Valdorcia í Toscana
Ferðalýsing

PÍLAGRÍMAGANGA um Valdorcia í Toscana

Pílagrímaganga um Valdorcia í Toscana, saga og vínrækt.
5. - 12. október.
Fararstjóri: Steinunn Harðardóttir

Þá er komið að sjötta áfanga okkar Göngu-Hrólfa um pílagrímaleiðina til Rómar. Að þessu sinni er þráðurinn tekinn upp þar sem áfanganum milli Lucca og Siena lauk. Við hefjum gönguna í bænum Buonconvento og endum í Bænum Bolsena við Bolsenavatnið. Þaðan er skammur spölur til bæjarins Montefiascone þar sem síðasti áfangi göngunnar til Rómar hefst.

Á undanförnum árum hafa pílagrímar Göngu Hrólfs gengið frá Lucca til Siena, úr St. Bernharðsskarði og um Aostadalinn, yfir Appeninafjöllin um Cisaskarðið til Luni, frá Luni til Lucca og síðustu 120 km til Rómar. Árið 990 lýsti Sigríkur erkibiskup af Kantaraborg áfangastöðum sínum á leiðinni heim frá Róm. Hann fór frá Englandi gegnum Frakkland, Sviss og Ítalíu og er sú leið kölluð Via Francigena. Hún er 1700 km. og 89 áfangar ef gengnir eru 20 km á dag. Við förum í fótspor hans en þó einkum Nikulásar ábóta frá Munkaþverá “Munkaþverárleið”. Nikulás gekk til Rómar frá Íslandi og lýsti leiðinni í ritinu “Leiðarvísir og borgarskipulag” árið 1154. Á göngunni fræðumst við um ferðir íslenskra pílagríma til Rómar á miðöldum. Þessi áfangi er tæpir 100 km., þrír nokkuð langir göngudagar um og yfir 20 km einn 15 km og tveir 7-8 km. Leiðin liggur um Valdorcia sem er líklega frægasti hulti Toscana, ávalar hæðir, vínekrur og cýpristré í röðum. Dalurinn meðfram Orcia ánni var samþykktur á lista UNESCO 2004. Þetta menningarlandslag er einstakt dæmi um fagurfræði og landmótun endurreisnarinnar. Hönnun sem hefur haft áhrif á landslagsskipulag fram á okkar dag. (Á þessu slóðum gerist bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar Málverkið)
Í dalnum eru mjög góðar aðstæður til vínræktar og frá bænum Montalcino kemur t.d. Brunello vínið sem er kallað konungur vínsins. Í ferðinni fáum við fræðslu um vínræktina og brögðum á vínunum. Meðal annars er gist í Bagnoni Vignoni sem er einstakur lítill miðaldabær með heitar lindir og fræg böð sem hægt er að njóta.
Almennt er gist í tveggja manna herbergjum á gistiheimilum og hótelum, í eitt skipti gætu einhverjir þurft að sameinast í þriggja manna herbergjum. Á tveimur gististaðanna eru ekki eins manns herbergi í boði og á hinum takmarkað framboð.

Gengið er um hæðir og hóla á stígum og sveitavegum en einnig malbiki smá spöl inn og út úr bæjunum. Þeir sem ganga alla göngudaga þurfa að vera í nokkuð góðu fomi. Hins vegar þarf enginn að láta langa göngudaga stoppa sig frá því að taka þátt í ferðinni. Bíll fylgir hópnum, flytur farangur á milli staða og þeir sem þessa óska geta fengið far á næsta gististað upp úr hádeginu. Hádegisverður á eigin vegum alla dagana. Lágmarksfjöldi er 12 manns hámarksfjöldi 15 manns.

Dagur 1
Keflavík-Róm- Buonconvento
Flogið til Rómar. Lent á Fiumicino flugvelli síðdegis og ekið til Buonconvento sem er í Sienahéraði. Þetta er einn af mörgum bæjum sem efldust og döfnuðu vegna pílagrímaferðanna fyrr á öldum. Miðaldabærinn sem er vel varðveittur er umkringdur borgarmúrum. Gisting á Albergo Il Ghibellino https://www.hotelghibellino.it/ eða á sambærilegum stað. Kvöldmatur í bænum

Dagur 2
Buonconvento to San Quirico Orcia (20km)
Haldið er eftir pílagrímaleiðinni frá Buonconvento til San Qirio Orcia og farið um fallegt landslag sem er einkennandi fyrir þennan hluta Toscana. Vínekrur, ólívulundir,ávalar hæðir og cýpristré í löngum röðum. Hinn frægi vínræktunarbær Montalcino er skammt undan. Með bæinn í augsýn fræðumst við um framleiðslu bæjarins og brögðum á Brunello víni sem er kallað konungur vínsins og er eitt þekktasta vín á Ítalíu og í heiminum. Á miðöldum hagnaðist Montalcino á þjónustu við pílagríma. Í dag er þar mikill uppgangur vegna Brunello di Montalcino vínanna. Þau eru unnin úr sangiovese grosso þrúgunni sem vex í hlíðunum umhverfis bæinn. Árið 1960 voru 11 vínframleiðendur nú að minnsta kosti 200 og afköstin a.m.k. 330.000 kassar af Brunello vínum á ári. Brunello vínið var það fyrsta sem fékk viðurkenninguna Denominazione di Origine Controllata e Garantita (DOCG). Gengið 5-6 tíma, hækkun 540m, lækkun 150m. 20 km. Hádegisverður á eigin vegum. Síðbúinn kvöldverður í gamla bænum í San Quirico Orcia. Gisting: San Quirico Orcia (Hotel Il Garibaldi eða sambærilegt) http://www.ilgaribaldisanquirico.it/

Dagur 3 
San Quirico Orcia - Bagno Vignoni (8 km).
Í San Quirico Orcia er gaman að skoða hina klassísku ítölsku garða sem þar eru, Horti Leonini. Þeir voru gerðir af manni með því nafni árið 1581. Garðarnir sem voru í nágrenni eins af pílagrímagistiheimilum bæjarins voru frá upphafi opnir gestum og gangandi. Í dag er haldið í ljúfa og skemmtilega göngu eftir þægilegum stíg og sveitavegi um fallegar hæðir að ánni Orcia. Leiðin liggur til Bagno Vignoni sem er lítill bær í hæðum þjóðgarðsins Val d’Orcia (2001 bjuggu þar 30 manns). Þarna eru heitar lindir sem voru uppgötvaðar af pílagrímum á leið til Rómar forðum. Böðin hafa þó líklega verið nýtt allt frá tímum Etruska og Rómverja og þangað hafa sótt páfar og prelátar. Þrátt fyrir ýmis áföll og stríð hefur bærinn varðveitt miðalda ásýnd sína og arkitektúr. Síðdegis höfum við góðan tíma til að slaka á í heitu vatninu eins og pílagrímar gerðu fyrr á öldum. Gengið 3 tíma, hækkun 260m, lækkun 280m, 8 km. Hádegisverður á eigin vegum, kvöldverður og gisting á Albergo Le Terme, Bagno Vignoni https://www.albergoleterme.it/

Dagur 4
Bagno Vignoni - Castiglione Orcia (7 km)
Enn einn stuttur og ljúfur dagur framundan. Við höldum upp á gamlan eldgíg en í hlíðum hans eru tvíburabæirnir Castiglione d’Orcia og Rocca d’Orcia. Þeir deila sömu hæðinni við ána Orcia (og að hluta sömu sögu). Virkið sem umlykur fyrrnefnda bæinn er svo stórt og mikið að það blasir við víða á Orcia svæðinu. Síðdegis kynnumst við falinni perlu „White Orcia” sem einungis er hægt að nálgast fótgangandi. Þar brögðum við á góðu víni og fáum fræðslu um vínræktina. Gengið 3 tíma, hækkun og lækkun 400m, lengd 7 km. Hádegsimatur á eigin vegum, kvöldverður og gistig á Albergo Le Rocche https://le-rocche.business.site/

Dagur 5
Castiglione Orcia- Radicofani (25km) Þessi dagur er nokkuð langur en einstaklega fallegur. Við göngum enn í fótspor pílagríma á leið til Rómar. Fyrst er haldið niður í móti með fallegu miðaldabæina að baki. Framundan er sveitin, akrar, engi og ræktarland fyrir búfénað sem oft má sjá þarna á beit. Að lokum er komið til bæjarins Radicofani sem er á mörkum héraðanna Toscana og Lazio. Bærinn stendur efst á gömlum og útbrunnum eldgíg og sést lengi framundan áður en markinu er náð. Efst trónir útsýnisturn og virki sem einkennir þennan yndislega bæ. Frá honum er frábært utsýni yfir lokatakmarkið Bolsenavatnið. Gengið 7 tíma, hækkun 650m, lækkun 250m, lengd 25 km. Gisting og kvöldverður: Hotel La Torre – Radicofani (SI)

Dagur 6
Radicofani-Acquapendente (22 km)
Þegar við yfirgefum Radicofani liggja fyrstu 10 kílómetrarnir niður hæðina sem bærinn stendur á. Þegar niður er komið er farið yfir ána Paglia en þar eru mörkin milli Toscana og Lazio. Fyrr á öldum voru þarna landamærin milli Toscana og kirkjunnar. Á leið okkar um fallegar sveitir má víða sjá merki þessarar sögu. Að lokum er komið inn í hinn skemmtilega forna bæ Acquapendente en hans er fyrst getið 964. Gamli miðalda kjarninn er einstaklega skemmtilegur og vel varðveittur og víða má sjá fornar minjar. Gengið 6 tíma, hækkun 300m, lækkun 450m, 22 km. Hádegisverður á eigin vegum. Kvöldverður í bænum. Gisting: Sosteria 38, Acquapendente (VT) http://www.sosteria38.it/

Dagur 7
Acquapendente-Bolsena (15km)
Leiðin milli Aguapendente og Bolsena liggur um einstaklega fallegar ávalar hæðir. Bolsena er gömul og falleg borg sem stendur á bökkum Bolsenavatnsins. Göngu okkar lýkur þó ekki þar heldur í skemmtilegri bændagistinu með fallegu útsýni. Þar fáum við að njóta einstaks víns og matar sem er einkennandi fyrir staðinn og svæðið. Gengið 6 tíma, hækkun 300m, lækkun 250m, lengd 15 km. Hádegisverður á eigin vegum. Kvöldverður og gisting: Agriturismo Montebell http://www.lariservamontebello.com/

Dagur 8
Bolsena Róm Keflavík
Áður en haldið er til Rómar um hádegisbil gefst tími til að ganga inn í Bolsena og að vatninu. Þar á bökkunum er hægt að fá sér léttan hádegiverð áður en haldið er út á flugvöllinn.

----------------------------

Alla dagana er gengið upp og niður hæðir og hóla. Þeir sem ganga alla göngudaga þurfa að vera í nokkuð góðu fomi. Hins vegar þarf enginn að láta langa göngudaga stoppa sig frá því að taka þátt í ferðinni því bíll fylgir hópnum til að flytja farangur á milli staða og skutla þeim sem þess óska á næsta gististað um og eftir hádegi. Hádegisverður er á eigin vegum alla dagana.
Lágmarksfjöldi er 12, hámarksfjöldi er 15 manns.
Almennt er gist í tveggja manna herbergjum á hótelum eða gistiheimilum. Í einu tilfelli gætu einhverjir þurft að sameinast í þriggja manna herbergi. Á fjórum gististaðanna er takmarkað framboð á eins manns herbergjum.(Viðbótarverð 36.000)

Innifalið: Flug og allur flutningur. Íslenskur fararstjóri og staðarleiðsögumaður (Matteo) alla göngudagana og bílstjóri (Gabrielle). Gisting 7 nætur, 7 morgunverðir og 7 kvöldverðir. Flutningur á farangri og akstur milli staða eða hluta gönguleiðarinnar fyrir þá sem þess óska. Vínsmökkun og fræðsla um Brunello vín og vínsmökkun og fræðsla hjá White Orcia.

Ekki innifalið: Hádegisverðir alla dagana (hægt verður að kaupa nesti á morgnana), heitar lindir og bað í Bagnioni Vignoni og þjórfé fyrir staðarleiðsögumann og bílstjóra. Auka greiðsla fyrir eins manns herbergi fjórar nætur 36.000.