Fara í efni
Gönguferð á Santorini
Ferðalýsing

Gönguferð á Santorini 

Fararstjóri er Steinunn Harðardóttir

Verdi og Göngu-Hrólfur bjóða upp á spennandi gönguferð á Santorini í haust.

Í þessari spennandi ellefu daga ferð verður flogið til Krítar og lent við Hania, þaðan er ekið til Heraklion og siglt með ferju til Santorini, næstu 7 nætur verður gist þar í bænum Perissa. Einn daginn er gengið upp á eina fjall eyjarinnar Profitis Ilias 560 mys, þar er áhugavert klaustur og útsýni yfir alla eyjuna. Þá er Gengið til Akrotiri þar sem tækifæri gefst til að skoða rústir bæjarins sem fór undir hraun í eldgosi um 1700 fyrir krist. Einnig verður siglt til eyjarinnar Kameni sem er í miðri öskju, eldfjall klifið og farið í bað í heitum lindum. Síðan verður gengið frá höfuðstaðnum Fira til Oia sem er einn fallegasti bærinn á eyjunni, þar eru hvít hús sem hafa verið byggð inn í klettana, hvítar kirkjur, blá þök, og stórkostlegt útsýni yfir öskjuna. Síðasta gangan er til hinar fornu Dórísku borgar Thiru, þar sem áhugaverður fornleifauppgröfur verður skoðaður. Að lokum er hægt að slaka á á ströndinni eða kynna sér mannlífið á frjásum degi á Santorini. Einnig eru tveir frjálsir dagar í Heraklion áður en haldið er aftur heim. Santorini (Thera) er 110 kílómetrum norðan við Krít og hefur yfir sér mikinn ævintýraljóma, vegna sérstæðrar sögu, jarðfræði, landslags og bygginga. Santorini er sögð geyma leyndarmálið um hið horfna Atlantis. Eyjan er í raun það sem eftir er af eldfjalli sem sprakk fyrir 3600 árum og eyddi byggð á svæðinu. Þá myndaðist stór vatnsfyllt askja umlukin mörg hundruð metra háum öskulögum. Þetta er eitt stæsta eldgos sem skráð hefur verið og flóðbylgjan sem því fylgdi hefur haft áhrif á endalok Minoamenningarinnar á Krít.

FERÐATILHÖGUN:

FERÐATILHÖGUN:

2.9. Dagur 1
Haldið frá Keflavík um morguninn og komið síðdegis til Hania, þaðan er ekið til Heraklion (um tveggja og hálfs tíma akstur). Stoppað verður á leiðinni fyrir kvöldverð. Gist á hótel Olimpic eða sambærilegu hóteli næstu nótt, https://www.hotelolympic.com/

3.9. Dagur 2 - Siglt til Santorini
Snemma um morguninn er farið niður á höfn og þaðan með ferju til Santorini, síðan með rútu á hótel í bænum Perissa sem er við sjóinn á suð austur hluta eyjarinnar. Gistiheimili og hótel á svæðinu eru lítil og fjölskyldurekin. Við höfum væntanlega tvö hótel til umráða sem eru mjög nálægt hvoru öðru líklega Hótel Phevos villa www.phevosvilla.gr og hótel Amaryllis https://www.amaryllis-santorini.com/. Eða sambærileg hótel. Morgunmatur verður á hótel Amaryllis og kvöldmatur á veitingahúsi í nágrenninu. Milli hótelanna er stuttur gangur.

4.9. Dagur 3 - Emporio-Akrotiri 
Við göngum eða tökum strædó frá hótelinu til Emporio sem er einstaklega fallegur og vel varðveittur bær með gömlum þröngum götum. Efst á hæðinni sem hann stendur við eru borgarmúrar. Það er mjög gaman að skoða húsin innan þeirra, þau eru margra alda gömul. Síðan er haldið áleiðis til Akrotiri yfir mjög sérstæða vínakra þar sem vínviðurinn myndar eins og stór hreiður. Í Akrotiri var blómlegt menningarsamfélag um 3000 fyrir krist, hellulagðar götur og þróað holræsakerfi. Þegar Santorini gaus um 1700 fyrir krist lagðist þykkt öskulag yfir bæinn. Hluti hans hefur verið grafinn upp og gerður aðgengilegur ferðamönnum. Þeir sem vilja geta fengið tíma til að skoða þennan einstaka stað. (12 evrur 6 fyrir ellilífeyrisþega) Frá Akrotiri er haldið að sérstæðri strönd með rauðum sandi, stundum gefst tækifæri til að taka þar sundsprett. Síðan er ekið með rútu heim til Perissa. Gengið ca 4 tíma lítil hækkun og lækkun.

5.9.Dagur 4 Fjallið Profitis Ilias
Þennan dag er haldið frá Perissa til gömlu Thiru og upp á hæsta fjall eyjarinnar Profitis Ilias (560mys) að klaustrinu sem er á toppnum. Af fjallinu er útsýni yfir alla eyjuna. Síðan er haldið niður eftir steinlögðum stíg (calderimi) til bæjarins Pyrgos sem er umlukinn borgarmúrum. Síðan er gengið rúman klukkutíma í viðbót og haldið um vínekrur og einstaklega fallegt lítið gil um útjaðar bæjarins Emporio og heim á hótel . Gengið 6.5 tíma hækkun/lækkun 560 m. Ef með þarf er hægt að fá akstur til baka frá Pyrgos.

6.9.Dagur 5 Á sjó og eldfjalli
Haldið er með bát til eldfjallaeyjarinnar Kameni sem er í miðri öskju Santorini. Eftir göngu upp í gýg eldfjallsins sem gaus síðast 1950 er siglt að eyjunni Litlu Kameni og þeir sem vilja geta hoppað í sjóinn af bátnum og synnt að heitum uppsprettum sem eru við ströndina. Að lokum er haldið til eyjarinnar Thirassia. Þar er gaman að skoða skemmtilegt þorp sem stendur á klettabrúninni. Þaðan er einstakt útsýni yfir á appelsínugular brúnir gýgsins sem er beint á móti. Gengið 2 tíma hækkun/lækkun 200m.

7.9. Dagur 6 Fira-Oia
Ekið er til bæjarins Fira sem er höfuðstaður eyjarinnar og gengið eftir brún öskjunnar til bæjarins Oia sem af mörgum er talinn fallegasti bær Santorini. Þaðan blasir við stórkostlegt útsýni til sjávar og yfir hvít hús með bláum þökum sem standa á öskjubrúninni, áberandi er hefðbundinn byggingastíll, fjölmörg kaffi-og veitingahús og litlar verslanir. Við gefum okkur góðan tíma í Oia og bíðum eftir sólarlaginu. Það er gaman að fylgjast með því frá kastalarústum í bænum. Eftir kvöldverð er ekið til baka og komið á hótel milli 22-23 Gengið 3.30 tíma hækkun/lækkun 330m.

8.9. Dagur 7 - Messavouno-Kamari
Í dag höldum við gangandi frá hótelinu til gömlu Thira, fornbæjar sem stofaður var af Dórium á 8. öld.f.kr. Síðar bjuggu þar afkomendur Alexaders mikla. Við skoðum fornleifauppgröftinn sem er efst á fjallinu Messavouno (369m) og höldum svo niður til bæjarins Kamari og þaðan með bát til Perissa. Gengið 4 tíma hækkun/lækkun 365m.

9.9. Dagur 8
Frjáls dagur á Santorini, hádegis og kvöldmatur ekki innifalinn.

10.9 Dagur 9 - Santorini- Heraclion
Haldið með ferju til Heraklion og bókað inn á hótel líklega hótel Olympichttps://www.hotelolympic.com/ þar verður gist næstu tvær nætur. Hádegismatur ekki innifalinn. Kvöldmatur á hótelinu eða í nágrenni við hótelið.

11.9. Dagur 10 Frjáls dagur í Heraklion, hádegis og kvöldverður á eigin vegum. Það er margt hægt að gera í bænum svo sem fara í skoðunarferð til Knossos sem eru rústir 3600 ára gamallar hallar frá Minoatímabilinu og á fornminjasafni bæjarins sem er alveg einstakt þar eru m.a. ýmsir munir frá þessum uppgreftri og fl.

12.9. Dagur 11 Brottfarardagur Ekið til Hanía og flogið þaðan til Íslands síðdegis.